Taktu stjórn á þínum eigin árangri

Taktu stjórn á þínum eigin árangri

Íþróttamenn eru í sífelldri naflaskoðum og spyrja sig reglulega þeirrar spurningar, hvernig get ég orðið betri? Ef til væri einhver einföld uppskrift, væru líklegast allir jafn góðir. Þeir sem hafa náð virkilega langt hafa lagt mikið á sig til þess að komast á þann stað og þeir sem stefna þangað eru eflaust á þeirri vegferð nú þegar.

Íþróttamaður sem ætlar sér að ná langt er til í að æfa klukkutímunum saman inn í sal eða úti á velli til að auka styrk, hraða, þol eða tækni þeirrar íþróttar sem þeir stunda. Naflaskoðunin sem nefnd er í upphafi pistilsins gengur yfirleitt út á þessa fjóra þætti íþróttamannsins, hraða, styrk, þol og tækni.

Margir vilja meina að það sem skilur á milli þeirra sem verða góðir og þeirra sem verða bestir er andlegur styrkur eða ákveðin skapgerð sem að íþróttamaður hefur tamið sér. Vissulega fæðumst við með misjafna hæfileika og skapgerð en margt í okkar fari höfum við mikla stjórn á.

Að takast á við mótlæti, velgengni, sorg, þora að gera mistök, komast í gegnum erfið meiðsl eða að sigrast á óttanum eru allt þættir sem allir íþróttamenn berjast einhvern tímann við á sínum ferli. Skapgerð eins og hugrekki, þrautseigja, þolinmæði, fórnfýsi, mikið sjálfstraust, góð einbeiting og vinnusemi geta klárlega hjálpað til og aukið líkurnar á því að íþróttamaðurinn sigrist á þeim andlegu áskorunum sem að íþróttir geta boðið uppá.

Eru íþróttamenn nægjanlega duglegir að taka sjálfa sig í naflaskoðun hvað andlega þáttinn varðar? Ertu kæri íþróttamaður að spyrja þig þeirrar spurningar hvort sjálfstraust þitt sé nægjanlega gott eða hvort að þú tæklir erfiðleika eða mótlæti nægjanlega vel? Er einbeitingin þín góð eða áttu það til að fara útaf sporinu of auðveldalega? Mættiru vera hugrakkari eða mætti vinnusemin vera meiri?

Taktu stjórn á þessum mikilvægu þáttum á þínum ferli og leggðu meiri vinnu í að efla og styrkja þá þætti sem þú telur vera ábótavant. Vinnan mun skila sér í bættum árangri í þinni íþrótt, en ekki síður í betri og sterkari einstakling.   

Það er ekki nóg að hafa líkamlega burði til að ná árangri því að ef að hausinn fylgir ekki með þá nær íþróttamaðurinn aldrei þeim hæðum sem hann ætti að geta náð. Ef að ákveðinn þróttamaður er byrjaður að huga að andlega þættinum, þá hvet ég hann eindregið til að halda því áfram. Það gildir nefnilega það sama með andlega þáttinn líkt og þann líkamlega, að ef þú heldur þér ekki við missir þú að lokum styrkinn eða hæfileikann sem þú hafðir byggt upp. Þau sem ekki eru komin af stað í þessa andlegu vinnu, takið stjórn á ykkar andlegu vellíðan STRAX í dag, því vinnan mun skila árangri og jákvæðari útkomu

Gangi ykkur vel 

Share:

On Key

Related Posts

Taktu stjórn á þínum eigin árangri

Íþróttamenn eru í sífelldri naflaskoðum og spyrja sig reglulega þeirrar spurningar, hvernig get ég orðið betri? Ef til væri einhver einföld uppskrift, væru líklegast allir